Main Content

Algengar spurningar námsmenn

 • Hvaða gögnum þarf að skila?

  Upplýsingar og gögn sem námsmenn þurfa að skila eftir að þeir hafa lagt inn umsókn eru afar mismunandi eftir hverri námsbraut fyrir sig og hvar námsmaðurinn er staddur á námsferlinum.

  Sumir eru beðnir um staðfestingu á innritun í námið sem þeir eru að fara í, aðrir um staðfestingu á því að þeir séu einstæðir foreldrar, enn aðrir um stöðuna í náminu - allt eftir aðstæðum hvers og eins.

  Eftir að umsókn hefur verið skilað inn fær námsmaður tilkynningu frá Lánasjóðnum þar sem tilgreind eru þau gögn og upplýsingar sem þarf að skila inn.

  Mikilvægt er að lesa bréfið vandlega og skila inn öllum umbeðnum gögnum ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að bréfið berst. Ef gögnum er ekki skilað fyrir þann tíma er heimilt að fella umsókn um námslán úr gildi.
   
  Þess má geta að ekki þurfa allir að senda viðbótargögn með umsókninni, það fer allt eftir aðstæðum og stöðu í námi. Námsmenn geta alltaf kannað hvort gögn frá þeim vantar á Mitt svæði.

 • Hve mikið get ég fengið?

  Nokkur atriði hafa áhrif á upphæðina sem þú getur fengið í námslán. Þú getur sett inn þínar forsendur beint inn í reiknivélina hér á síðunni. Þessi atriði hafa m.a. áhrif:

  • Námslandið. Framfærslupphæðin er breytileg eftir löndum. Framfærslutafla sýnir lán fyrir hverja einingu í hverju landi í viðkomandi gjaldmiðli, miðað við heimilisaðstæður námsmanns.
  • Heimilis- og fjölskylduaðstæður námsmanns áhrif á upphæðina, þ.e. hvort námsmaður býr hjá foreldrum eða einn, hvort hann er í sambúð og hvort hann á börn.  Allar upplýsingar um þetta eru í framfærslutöflunni.
  • Tekjur námsmanns hafa áhrif á lánsupphæðina. Sjá nánar í svari við spurningunni; hvernig hafa tekjur áhrif á lán?
 • Hvaða nám er lánshæft?

  Nám er lánshæft ef skólinn skipuleggur það sem fullt nám á hverju skólaári. Fullt nám er 60 ECTS-einingar eða sambærilegt.

  Nám í öllum viðurkenndum háskólum er lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám. En einnig er lánað til ýmiskonar sérnáms, sjá nánar annað nám á Íslandi, nám erlendis, skiptinám.
  Heimilt er að veita skólagjaldalán eingöngu til náms sem skipulagt er sem 45-59 ECTS-eininga nám á skólaárinu. Það verður hins vegar að vera a.m.k. 45 ECTS-einingar á hverju skólaári, þ.e. 75% nám.

  Sjá nánar um þetta undir Lánshæft nám.

 • Hvernig hafa tekjur áhrif á lán?

  • Allar skattskyldar tekjur námsmanns (og maka ef sótt er um makalán)  árið 2017 hafa áhrif á upphæð námsláns veturinn 2017-2018.
  • Námsmaður má hafa 930 þús. krónur í tekjur á árinu án þess að lánið skerðist.
  • Séu tekjurnar hærri  lækkar lánið sem nemur 45% af umframtekjunum, þ.e. 45% af öllum tekjum umfram 930 þús. koma til lækkunar á námsláni.
  • Lækkuninni er dreift á allar einingar sem námsmaðurinn skilar og er því jöfn allt námsárið.
  • Námsmenn sem eru að koma úr leyfi og voru ekki á námslánum á síðasta námsári mega hafa 2.790.000 kr. án þess að lánið skerðist, en síðan skerða umframtekjur lánið með sama hætti og lýst er hér að ofan.
 • Hvaða reglur eru um námsframvindu?

  Námsmenn verða að ljúka að minnsta kosti 22 ECTS-einingum á hverri önn á námsárinu 2017-2018 til að eiga rétt á námsláni.

  Til að fá borgað fullt námslán þarf námsmaður að ljúka 60 ECTS-einingum á skólaári eða 30 ECTS-einingum á önn.

  Ljúki námsmaður 22 ECTS-einingum á einni önn fær hann 73% af fullu námsláni fyrir eina önn.

 • Hvað er lánsáætlun?

  Eftir að námsmaður hefur sótt um námslán og skilað inn þeim upplýsingum sem Lánasjóðurinn óskaði eftir, er útbúin lánsáætlun og birt á Mitt svæði. Þar er reiknað út hvað námsmaðurinn fær mikið í námslán út frá aðstæðum viðkomandi, t.d. námslandi, fjölskylduhögum, tekjum og áætlun um námsframvindu.

   

 • Hvenær er greitt út?

  Í janúar fyrir haustönn, hafi námsmaður lokið á bilinu 22 til 30 ECTS-einingum. Aftur er greitt út í byrjun maí fyrir vorönn ef námsmaður hefur lokið 44 ECTS-einingum eða meira á skólaárinu.

  Þeir sem eru í sumarnámi fá greitt út eftir sumarið. Útborganir sumarlána hefjast í byrjun ágúst. Lágmark er að taka 15 ECTS-einingar á sumarönn.

 • Hvað eru námslok/lokun skuldabréfs?

  Ef námsmaður sækir ekki um námslán í eitt ár gerir Lánasjóðurinn ráð fyrir að hann sé hættur námi og undirbýr að loka skuldabréfi hans. Námsmaðurinn fær senda tilkynningu um þetta þar sem tilkynnt er að námslokin eða lokunardagurinn miðist við lok þess námsárs þegar hann fékk síðast námslán. Frá og með þeim degi reiknast vextir á lánið. Afborganir á láninu hefjast síðan tveimur árum eftir þennan lokadag.

  Ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi, en er hættur að sækja um námslán, getur hann sótt um frestun á lokun skuldabréfs. Hann þarf þá að sækja um frestunina með sérstakri umsókn og leggja fram gögn sem sanna að hann sé enn í lánshæfu námi og sé með lánshæfan árangur.

 • Hvað er ofgreitt lán?

  Ef námsmaður hefur fengið lán sem hann hefur ekki rétt á þá þarf hann að endurgreiða það.

  Námsmaður fær ekki frekari námslán fyrr en hann hefur borgað til baka ofgreidda lánið eða samþykkt skuldabréf fyrir greiðslu þess. Um leið og hann hefur samþykkt skuldabréfið telst hann vera í skilum og getur fengið aftur lán.

  Ofgreidd lán geta verið af ýmsum ástæðum. Algengustu tilvikin eru þegar námsmaður fær greitt skólagjaldalán fyrirfram vegna annar, en skilar ekki lánshæfum árangri á önninni. Þá á hann ekki rétt á láninu og verður að endurgreiða það.

  Önnur algeng ástæða er sú að námsmaður reynist hafa haft hærri tekjur en gefið var upp, lánið er þá endurreiknað og ef í ljós kemur að námsmaðurinn hafi fengið of hátt lán afgreitt, þarf hann að endurgreiða mismuninn.

 • Get ég fengið námslán ef ég veikist?

  Lágmarkseiningafjöldi til að fá námslán er 22 ECTS-einingar á námsárinu. Nái námsmaður því ekki vegna veikinda má veita undanþágu og greiða lán fyrir allt að 22 ECTS-einingar.

  Skilyrði er að námsmaður hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi (22 ECTS-einingum eða sambærilegu).

  Með sama hætti er hægt að veita undanþágu vegna veikinda barns, maka eða foreldra námsmanns ef veikindin raska verulega högum námsmanns.

  Þetta á einnig við um aukið svigrúm vegna andláts í fjölskyldunni.


  Leggja þarf fram sérstaka beiðni um ofantaldar undanþágur ásamt nákvæmu læknisvottorði og öðrum gögnum sem námsmaður kann að vera beðinn um. Námsárangur þarf alltaf að liggja fyrir.

 • Fæ ég námslán vegna barnsburðar?

  Lágmarkseiningafjöldi til að fá námslán er 22 ECTS-einingar á námsárinu. Ef námsmaður eignast barn á meðan námi stendur og nær ekki þessu lágmarki má bæta alllt að 16 ECTS-einingum við námsárangurinn.  Það þýðir að námsmaður þarf að hafa lokið að lágmarki 6 ECTS-einingum á önninni til að eiga rétt á slíkri undanþágu.  Skilyrði er að námsmaður hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi (22 ECTS-einingar eða sambærilegt) á einu misseri síðustu 12 mánuði áður en hann þarf á svigrúminu að halda eða hann skili fullnægjandi árangri á næsta misseri á eftir.
  Þetta svigrúm getur námsmaður nýtt sér fram að 12 mánaða aldri barns. 

 • Hvernig á að sækja um lán?

  Sækja þarf um námslán fyrir hvert skólaár. Hægt er að sækja um allt skólaárið (haust- og vorönn) í einu lagi.

  Til að umsóknin gildi fyrir allt skólaárið þarf hún að berast ekki seinna en 30. nóvember, berist hún eftir þann tíma gildir hún einungis fyrir nám á vorönn. Lokafrestur vegna náms á vorönn er til og með 30. apríl. Umsókn um lán á sumarönn þarf að berast ekki seinna en 30. júní.

  Ef umsóknir berast eftir framangreinda umsóknarfresti getur námsmaður ekki fengið námslán fyrir þá önn.

 • Á hvaða kjörum eru námslán?

  Námslán eru verðtryggð og vextir á þeim núna eru 1%. Samkvæmt lögum mega vextirnir vera allt að 3%.  Auk þess er dregið 1,2% lántökugjald af öllum útborguðum lánum.

 • Hvaða háskólanám erlendis er lánshæft?

  Námslán eru veitt til náms í viðurkenndum erlendum háskólum sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsnáms (stúdentspróf eða sambærilegt) og háskólar á Íslandi.
  Ef skóli er ekki á skrá hjá LÍN þýðir það ekki endilega að hann sé ekki lánshæfur. Erlendir skólar eru ekki settir á skrá hjá sjóðnum nema námsmaður hafi áður sótt um námslán til þess skóla og fengið samþykki.

 • Hvaða sérnám erlendis er lánshæft?

  Námsmenn í sérnámi erlendis geta fengið lán ef um er að ræða fullt nám í a.m.k. eitt skólaár. Lánasjóðurinn metur hvort námið er nógu veigamikið varðandi uppbyggingu og starfsréttindi að námi loknu.

  Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Ekki er lánað til tungumálanáms ef um er að ræða ensku, norsku, dönsku og sænsku.

 • Hvaða sérnám/iðnnám á Íslandi er lánshæft?

  Framhaldsskólanemar sem stefna á stúdentspróf eða sambærilegt próf geta ekki fengið námslán. Hins vegar  er námslán veitt fyrir löggilt iðnnám og annað viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi sem skipulagt er af viðeigandi starfsgreinaráði. 

  Námsmenn geta líka átt rétt á námslánum þegar þeir eru að vinna á samningi ef umsamin laun eru lægri en grunnframfærsla námsmannsins. Þegar upphæð námslánanna er reiknuð eru nemalaunin meðhöndluð eins og aðrar tekjur skv. reglum sjóðsins og geta skert lánin.

  Ef námið byrjar beint eftir grunnskóla er ekki veitt lán vegna fyrstu anna námsins í almennum kjarnagreinum eða grunnnámi iðngreina. Að hámarki skal veita lán fyrir 75% af heildarnámstíma að meðtöldum launuðum starfsnámstíma.

 • Hvernig eiga námsmenn erlendis að senda námsárangur?

  Allir námsmenn erlendis verða sjálfir að senda námsárangur til sjóðsins því sjóðurinn er ekki í beinu sambandi við skólana.

  Námsárangurinn þarf að vera á bréfsefni merktu skólanum. Þar verður að koma fram nafn námsmanns og skólans, einnig námsárið og einingarnar sem námsmaðurinn lýkur á viðkomandi önn eða skólaári.

  Ekki er tekið við tölvupósti sem vottorði um námsárangur. Hins vegar geta námsmenn eða skóli skannað inn einkunnablöð og sent sem viðhengi í tölvupósti til Lánasjóðsins.

 • Hvað gerir umboðsmaður?

  Allir námsmenn sem fara í nám til útlanda þurfa að hafa umboðsmann sem búsettur er á Íslandi. Umboðsmaðurinn hefur umboð frá námsmanni til að annast hans mál hjá sjóðnum.

  Umboðsmaður getur átt von á að sjóðurinn óski eftir milligöngu hans þegar koma þarf tilkynningum eða gögnum til námsmanns.

   

 • Hvað gerist ef ég hætti í námi?

  Ef námsmaður skilar ekki lágmarksnámsárangri, 22 ECTS-einingum á önn, er litið svo á að viðkomandi hafi hætt í námi.  Ef námsmaður hefur fengið fyrirframgreidd skólagjöld verða þau innheimt sérstaklega sem ofgreiðslulán.  Þau lán þarf annað hvort að endurgreiða strax eða semja um endurgreiðslu á skuldabréfi sem getur verið til allt að 15 mánaða.

 • Hvernig skipti ég um bankareikning?

  Ef námsmenn þurfa að skipta um bankareikning eftir að hafa fengið lánsáætlun þarf bankinn, sem lánsáætlunin er gefin út á, að samþykkja breytinguna.

  Bankarnir hafa eyðublöð frá LÍN þar sem þeir geta staðfest samþykki sitt og gefið upp nýja bankareikninginn í leiðinni.

  Námsmenn þurfa því að hafa samband við bankann sem þeir eru að flytja sig úr og óska eftir því að upplýsingarnar verði sendar til LÍN.

  Hafi námsmaður ekki fengið lánsáætlun má senda tilkynningu um nýjan bankareikning á netfangið lin@lin.is.

Námsmenn

Jöfnunarstyrkur

Greiðendur

Ábyrgðarmenn

Um LÍN